Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 391. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 452  —  391. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

    1.–3. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
    1. Norðvesturkjördæmi.
    Til þess teljast eftirtalin sveitarfélög: Akraneskaupstaður, Hvalfjarðarstrandarhreppur, Skilmannahreppur, Innri-Akraneshreppur, Leirár- og Melahreppur, Skorradalshreppur, Borgarfjarðarsveit, Hvítársíðuhreppur, Borgarbyggð, Kolbeinsstaðahreppur, Eyja- og Miklaholtshreppur, Snæfellsbær, Grundarfjarðarbær, Helgafellssveit, Stykkishólmsbær, Dalabyggð, Saurbæjarhreppur, Reykhólahreppur, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Súðavíkurhreppur, Árneshreppur, Kaldrananeshreppur, Hólmavíkurhreppur, Broddaneshreppur, Bæjarhreppur, Húnaþing vestra, Áshreppur, Sveinsstaðahreppur, Torfalækjarhreppur, Blönduóssbær, Svínavatnshreppur, Bólstaðarhlíðarhreppur, Höfðahreppur, Skagabyggð, Sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur.
    2. Norðausturkjördæmi.
    Til þess teljast eftirtalin sveitarfélög: Siglufjarðarkaupstaður, Ólafsfjarðarbær, Grímseyjarhreppur, Dalvíkurbyggð, Hríseyjarhreppur, Arnarneshreppur, Hörgárbyggð, Akureyrarkaupstaður, Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsstrandarhreppur, Grýtubakkahreppur, Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppur, Aðaldælahreppur, Húsavíkurbær, Tjörneshreppur, Kelduneshreppur, Öxarfjarðarhreppur, Raufarhafnarhreppur, Svalbarðshreppur, Þórshafnarhreppur, Skeggjastaðahreppur, Vopnafjarðarhreppur, Norður-Hérað, Fljótsdalshreppur, Fellahreppur, Austur-Hérað, Borgarfjarðarhreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður, Fjarðabyggð, Mjóafjarðarhreppur, Fáskrúðsfjarðarhreppur, Búðahreppur, Stöðvarhreppur, Breiðdalshreppur og Djúpavogshreppur.
    3. Suðurkjördæmi.
    Til þess teljast eftirtalin sveitarfélög: Sveitarfélagið Hornafjörður, Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Ásahreppur, Vestmannaeyjabær, Gaulverjabæjarhreppur, Sveitarfélagið Árborg, Hraungerðishreppur, Villingaholtshreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Hrunamannahreppur, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hveragerðisbær, Sveitarfélagið Ölfus, Grindavíkurkaupstaður, Sandgerðisbær, Gerðahreppur, Reykjanesbær og Vatnsleysustrandarhreppur.

2. gr.

    Við 13. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Yfirkjörstjórn getur ákveðið að í kjördæmi sé umdæmiskjörstjórn. Skal hún kosin af yfirkjörstjórn og skipuð þremur mönnum og jafnmörgum til vara. Umdæmiskjörstjórn kýs sér sjálf oddvita.

3. gr.

    Í stað orðanna „og yfirkjörstjórn“ í 2. mgr. 18. gr. laganna kemur: yfirkjörstjórn og umdæmiskjörstjórn.

4. gr.

    Í stað orðanna „og yfirkjörstjórna“ í 1. málsl. 3. mgr. 19. gr. laganna kemur: yfirkjörstjórna og eftir atvikum umdæmiskjörstjórna.

5. gr.

    Í stað orðanna „framkvæmdastjóra hennar“ í 2. mgr. 24. gr. laganna kemur: framkvæmdastjóra sveitarfélags.

6. gr.

    Í stað 2. málsl. 1. mgr. 52. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir sem orðast svo: Fyrir framan bókstaf hvers lista, sem skal vera stór og greinilegur og standa yfir miðjum listanum, skal vera ferningur. Niður undan bókstafnum skulu vera nöfn frambjóðenda listans í réttri röð ásamt stöðu eða starfsheiti og heimili ef nauðsyn þykir til auðkenningar.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 80. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                  Engum, sem ekki er á kjörskrá, má kjörstjórn leyfa að greiða atkvæði nema annað tveggja komi til:
        1.    Hann framvísi vottorði, undirrituðu af oddvita sveitarstjórnar eða framkvæmdastjóra sveitarfélags, um að hann afsali sér kosningarrétti þar sem hann er á kjörskrá enda hafi kjörstjórn þess kjörstaðar þar sem kjósandi hyggst neyta atkvæðisréttar borist tilkynning um hvaða kjósendum sveitarstjórn hefur gefið vottorð.
        2.    Hann undirriti beiðni á sérstakt eyðublað um að afsala sér kosningarrétti í þeirri kjördeild þar sem nafn hans er á kjörskrá og að kjörstjórn á þeim kjörstað þar sem kjósandi óskar að neyta atkvæðisréttar staðfesti slíkt afsal með undirritun oddvita eða tveggja kjörstjórnarmanna.
     b.      Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
                  Kjörstjórn er óheimilt að staðfesta vottorð eða beiðni um afsal kosningarréttar nema sannað verði, með þeim hætti sem kjörstjórn metur gilt, að nafn kjósanda standi á kjörskrá í annarri kjördeild í sama kjördæmi og hann hafi ekki neytt kosningarréttar þar. Skráð skal athugasemd á kjörskrá, þar sem nafn kjósanda er, hvar hann neyti kosningarréttar og þess getið í kjörbók. Afsalið skal færa í kjörbók undirkjörstjórnar þar sem kjósandinn neytir kosningarréttar og vottorðið skal fylgja í frumriti til yfirkjörstjórnar með kjörbók þeirrar kjördeildar þar sem það er lagt fram og notað.

8. gr.

    1. mgr. 82. gr. laganna orðast svo:
    Kjósandi greiðir atkvæði á þann hátt að hann markar með ritblýi kross í ferning fyrir framan bókstaf þess lista á kjörseðlinum sem hann vill kjósa.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 95. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „yfirkjörstjórnar“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: eða eftir atvikum til umdæmiskjörstjórnar, sbr. 1. mgr. 97. gr.
     b.      Á eftir orðinu „yfirkjörstjórn“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: eða umdæmiskjörstjórn.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 96. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Ef yfirkjörstjórn eða umdæmiskjörstjórn er viðstödd á kjörstað og talning atkvæða fer fram samstundis má kjörstjórn afhenda yfirkjörstjórn eða umdæmiskjörstjórn atkvæðakassann óinnsiglaðan að viðstöddum umboðsmönnum lista.
     b.      Á eftir orðinu „yfirkjörstjórnar“ í 2. mgr. kemur: eða eftir atvikum til umdæmiskjörstjórnar.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 97. gr. laganna:
     a.      Við greinina bætist ný málsgrein er verður 1. mgr. og orðast svo:
                  Yfirkjörstjórn getur ákveðið að auk talningar hjá henni geti talning farið fram hjá umdæmiskjörstjórn, á öðrum stað í kjördæminu.
     b.      Á eftir orðinu „hún“ í 1. málsl. 1. mgr., er verður 2. mgr., kemur: eða umdæmiskjörstjórn.
     c.      Á eftir orðinu „yfirkjörstjórnar“ í 2. málsl. 1. mgr., er verður 2. mgr., kemur: eða umdæmiskjörstjórnar.
     d.      Á eftir orðinu „yfirkjörstjórnar“ í 3. málsl. 1. mgr., er verður 2. mgr., kemur: eða umdæmiskjörstjórnar.
    

12. gr.

    Á eftir orðinu „yfirkjörstjórn“ í 2. mgr. 98. gr. laganna kemur: eða umdæmiskjörstjórn.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 99. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „yfirkjörstjórn“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: eða umdæmiskjörstjórn.
     b.      Á eftir orðinu „Yfirkjörstjórn“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: eða umdæmiskjörstjórn.
     c.      Á eftir orðinu „yfirkjörstjórnar“ í 2. mgr. kemur: eða umdæmiskjörstjórnar.

14. gr.

    Í stað orðanna „framan við listabókstafinn en t.d. aftan við hann“ í 2. málsl. 1. mgr. 101. gr. laganna kemur: í ferning við listabókstafinn en t.d. utan hans.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 103. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „yfirkjörstjórn“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: eða umdæmiskjörstjórn.
     b.      Á eftir orðinu „kjörstjórnar“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: eða umdæmiskjörstjórnar.
     c.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein er orðast svo:
                  Nú verður ágreiningur innan umdæmiskjörstjórnar eða á milli umdæmiskjörstjórnar og einhvers umboðsmanns um það hvort kjörseðill er gildur eða ógildur og skal þá umdæmiskjörstjórnin senda hann til yfirkjörstjórnar sem úrskurðar um gildi hans.
     d.      Í stað orðanna „færir yfirkjörstjórn“ í 1. málsl. 3. mgr., er verður 4. mgr., kemur: kynnir umdæmiskjörstjórn niðurstöðu talningar sinnar yfirkjörstjórn sem færir.

16. gr.

    Við 104. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Hafi talning farið fram hjá umdæmiskjörstjórn skal hún, eftir að starfi hennar er lokið, senda alla notaða kjörseðla undir innsigli til yfirkjörstjórnar og skal gildum og ógildum kjörseðlum haldið aðgreindum. Auk þess sendir hún yfirkjörstjórn allar kjörskrár í innsigluðum umbúðum og einnig eftirrit af gerðabók sinni viðvíkjandi kosningunni. Yfirkjörstjórn skal fara með þessi gögn á sama hátt og þau sem eru í hennar vörslu.

17. gr.

    1. málsl. 3. mgr. 105. gr. laganna orðast svo: Sé atkvæðasending frá einhverri kjördeild ekki komin til yfirkjörstjórnar eða eftir atvikum umdæmiskjörstjórnar á þeim tíma sem nefndur er í 97. gr. skal yfirkjörstjórn eða umdæmiskjörstjórn eigi að síður opna atkvæðakassa og önnur kjörgögn á þeim tíma sem auglýstur hafði verið.
    

18. gr.

    Á eftir orðinu „yfirkjörstjórna“ í b-lið 123. gr. laganna kemur: og umdæmiskjörstjórna.

19. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarpið er samið í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Megintilgangur þess er að heimila talningu atkvæða á fleiri en einum stað í hverju kjördæmi. Með breyttri kjördæmaskipan hafa sum kjördæmin stækkað svo mjög að vegalengdir innan þeirra gætu hamlað því að atkvæðasendingar bærust með góðu móti á milli staða, sér í lagi ef til kosninga kæmi að vetri til. Enn fremur þykir nauðsynlegt að upptalning á sveitarfélögum í 6. gr. laganna verði lagfærð í samræmi við breytingar sem orðið hafa á heiti þeirra vegna sameiningar eða af öðrum ástæðum. Þá er lagt til að kjörseðlar verði útbúnir með kassa eða ferningi fyrir framan listabókstafina, sem kjósendur setja krossinn í. Tekið skal fram að atkvæði er gilt þótt merkt sé utan fernings, svo lengi sem ljóst er við hvaða listabókstaf er átt. Í þessu sambandi er brýnt að hafa í huga að vafaatkvæði verði skýrð með hliðsjón af vilja kjósanda. Loks er talin ástæða til að auðvelda kjósendum, sem eiga erfitt með að komast á sinn rétta kjörstað eða greiða atkvæði þar, t.d. vegna fötlunar, að afsala sér kosningarrétti í sinni kjördeild og fá að greiða atkvæði í annarri kjördeild.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Heitum eftirfarandi sveitarfélaga í Norðvesturkjördæmi hefur verið breytt, en breytingarnar eru:
     1.      Eyrarsveit varð Grundarfjarðarbær.
     2.      Hólmavíkurhreppur og Kirkjubólshreppur sameinuðust í Hólmavíkurhrepp.
     3.      Blönduóssbær og Engihlíðarhreppur sameinuðust í Blönduóssbæ.
     4.      Vindhælishreppur og Skagahreppur sameinuðust í Skagabyggð.
    Heitum eftirfarandi sveitarfélaga í Norðausturkjördæmi hefur verið breytt, en breytingarnar eru:
     1.      Ólafsfjarðarkaupstaður varð Ólafsfjarðarbær.
     2.      Skriðuhreppur, Öxnadalshreppur og Glæsibæjarhreppur sameinuðust í Hörgárbyggð.
     3.      Hálshreppur, Ljósavatnshreppur, Bárðdælahreppur og Reykdælahreppur sameinuðust í Þingeyjarsveit.
     4.      Reykjahreppur og Húsavíkurkaupstaður sameinuðust í Húsavíkurbæ.
    Heitum eftirfarandi sveitarfélaga í Suðurkjördæmi hefur verið breytt, en breytingarnar eru:
     1.      Austur-Eyjafjallahreppur, Vestur-Eyjafjallahreppur, Austur-Landeyjahreppur, Vestur- Landeyjahreppur, Fljótshlíðarhreppur og Hvolhreppur sameinuðust í Rangárþing eystra.
     2.      Rangárvallahreppur, Holta- og Landsveit og Djúpárhreppur sameinuðust í Rangárþing ytra.
     3.      Skeiðahreppur og Gnúpverjahreppur sameinuðust í Skeiða- og Gnúpverjahrepp.
     4.      Biskupstungnahreppur, Laugardalshreppur og Þingvallahreppur sameinuðust í Bláskógabyggð.

Um 2. gr.

    Samkvæmt þessari grein er yfirkjörstjórn heimilað að kjósa sérstaka umdæmisstjórn til þess að hægt verði að telja atkvæði á fleiri en einum stað í hverju kjördæmi. Umdæmiskjörstjórnin mun þá hafa sömu heimildir og yfirkjörstjórn til þess að taka við atkvæðakössum og telja atkvæði. Breyting þessi miðar að því að auðvelda og flýta fyrir talningu í stórum kjördæmum þar sem fjarlægðir á milli endimarka kjördæmis eru miklar. Til dæmis mætti þá hugsa sér að ef yfirkjörstjórn væri með aðsetur á Akureyri mundi umdæmiskjörstjórn telja atkvæði á Egilsstöðum.

Um 3. gr.

    Hér er lagt til að dómsmálaráðherra ákveði þóknun fyrir störf í umdæmiskjörstjórn. Þar sem henni er ætlað að vinna sama verk og yfirkjörstjórn við talningu atkvæða þykir eðlilegt að sami aðili ákveði þóknun þeirra.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 5. gr.

    Breytingin er til að gæta samræmis við aðra þætti í lögum um kosningar til Alþingis.

Um 6. gr.

    Hér er lagt til að settur verði kassi fyrir framan hvern listabókstaf sem á kjörseðlinum stendur þar sem kjósanda er ætlað að rita kross, til þess að merkja við þann lista sem hann hyggst kjósa, en reynslan hefur sýnt að núverandi fyrirkomulag er ekki nógu skýrt. Má ætla að almenningur hafi vanist krossum af þessu tagi, m.a. við útfyllingu flestra eyðublaða, í krossaprófum o.fl. Með þessu er vonast til að eyða óvissu kjósanda um það hvar á kjörseðlinum hann á að merkja með krossi og til þess að draga úr hættu á að atkvæðið verði talið til vafaatkvæða.

Um 7. gr.

    Lagt er til að ákvæði 80. gr. laganna verði löguð að þeirri framkvæmd sem lengi hefur tíðkast varðandi afsal kosningarréttar þar sem kjósandi er á kjörskrá til þess að kjósa í annarri kjördeild innan sama kjördæmis.
    Kjósandi þarf þá að framvísa vottorði, undirrituðu af framkvæmdastjóra sveitarfélags eða oddvita sveitarstjórnar, um að hann afsali sér kosningarrétti þar sem hann er á kjörskrá enda hafi kjörstjórn þess kjörstaðar þar sem kjósandi hyggst neyta atkvæðisréttar borist tilkynning um hvaða kjósendum sveitarstjórn hefur gefið vottorð. Jafnframt getur hann undirritað, á sérstakt eyðublað, beiðni um að hann afsali sér kosningarrétti í þeirri kjördeild þar sem nafn hans er á kjörskrá og að kjörstjórn á þeim kjörstað þar sem kjósandi óskar að neyta atkvæðisréttar staðfesti slíkt afsal.
    Áður en slíkt vottorð eða beiðni er staðfest ber kjörstjórn að afla staðfestingar frá þeim kjörstað eða kjördeild, þar sem nafn kjósanda er á kjörskrá, að hann hafi ekki neytt kosningarréttar. Þetta má t.d. gera símleiðis. Sé hvort tveggja staðfest og hafi verið skráð á kjörskrá við nafn kjósandans hvar hann neytir kosningarréttar skal kjörstjórn heimila honum að kjósa á viðkomandi kjörstað innan kjördæmisins.
    Lítið hefur reynt á ákvæði 2. mgr. 80. gr. í reynd. Í alþingiskosningunum 1999 var afsal afgreitt í 88 tilfellum á landinu öllu, þar af 22 í Reykjavík.

Um 8. gr.

    Breyting þessi gerir ráð fyrir að kjósandi setji kross í ákveðinn reit fyrir framan bókstaf þess lista sem hann hyggst kjósa í stað þess að marka kross á autt svæði fyrir framan listabókstafinn. Að öðru leyti vísast til umfjöllunar um 6. gr. frv.

Um 9. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 10. gr.

    Í a-lið er umdæmiskjörstjórn falið sama vald og yfirkjörstjórn til að hefja talningu samstundis ef hún er stödd á kjörstað og til að taka við atkvæðakössum óinnsigluðum beint úr höndum kjörstjórnar af því tilefni að viðstöddum umboðsmönnum lista.
    Þá er lagt til í b-lið að umdæmiskjörstjórn fái send þau kjörskráreintök sem notuð voru við kosninguna á þeim stöðum sem hún telur atkvæði frá.

Um 11. gr.

    Hér er lagt til að yfirkjörstjórn verði gefin formleg heimild til að ákveða að umdæmiskjörstjórn geti talið atkvæði á öðrum stað í kjördæmi sínu. Þetta er hugsað til að einfalda og flýta fyrir talningu í stórum kjördæmum þar sem langt er á milli staða.
    Aðrar breytingar þarfnast ekki skýringa.

Um 12. og 13. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 14. gr.

    Breyting þessi er gerð til samræmis við breytingu í 6. gr. frumvarpsins sem gerir ráð fyrir ferningi fyrir framan listabókstaf þar sem ætlast er til að kjósandi setji kross. Taka skal gilt atkvæði þótt merkt sé utan fernings, svo lengi sem ljóst er við hvaða listabókstaf er átt. Í þessu sambandi er brýnt að hafa í huga að vafaatkvæði verði skýrð með hliðsjón af vilja kjósanda.

Um 15. gr.

    Í c-lið er lagt til að sérstök umdæmiskjörstjórn hafi ekki úrskurðarvald um gildi kjörseðils þegar upp kemur ágreiningur innan hennar eða á milli hennar og umboðsmanns lista. Skulu þá vafaatkvæði sem ágreiningur er um send áfram til yfirkjörstjórnar til úrskurðar.
    Þá er gert ráð fyrir í d-lið greinarinnar að yfirkjörstjórn kynni úrslit talningar í hverju kjördæmi með sama hætti og verið hefur, eftir atvikum að fengnum niðurstöðum frá umdæmiskjörstjórn, hafi hún verið kosin, sbr. 2. gr. frv. Það kemur þó ekki í veg fyrir að umdæmiskjörstjórn skýri viðstöddum frá niðurstöðu talningar í sínu umdæmi. Þegar yfirkjörstjórn telur aðsend utankjörfundaratkvæði sem ekki hafa borist til umdæmiskjörstjórnar í tæka tíð færir hún niðurstöðu þeirrar talningar með þeim tölum sem berast frá umdæmiskjörstjórn.

Um 16. gr.

    Með þessari grein er, í þeim tilvikum sem umdæmiskjörstjórn er kosin, gert ráð fyrir að hún sendi yfirkjörstjórn þau gögn sem hún hefur fengið í hendur vegna talningar, þ.e. notaða kjörseðla og kjörskráreintök þau sem notuð voru á kjörstað, þegar störfum hennar er lokið. Einnig er umdæmiskjörstjórn falið að senda eftirrit af gerðabók sinni til yfirkjörstjórnar. Yfirkjörstjórn er síðan gert að fara á sama hátt með þessi gögn og þau sem eru í hennar vörslu, þ.e. eftir atvikum geyma þau eða senda áfram til dómsmálaráðuneytisins.

Um 17. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 18. gr.

    Gert er ráð fyrir að ríkissjóður greiði nauðsynlegan kostnað við störf umdæmiskjörstjórna í þeim tilvikum þar sem slík kjörstjórn starfar, þar sem hún vinnur sama verk og yfirkjörstjórn við talningu atkvæða og því eðlilegt að sami aðili greiði kostnað þeirra.

Um 19. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa. Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 24/2000,
um kosningar til Alþingis.

    Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um kosningar til Alþingis. Helsta breytingin er sú að yfirkjörstjórnum verður heimilt að kjósa umdæmiskjörstjórn sem telji atkvæði annars staðar í kjördæminu en á aðsetri yfirkjörstjórnar. Tilefni þessarar breytingar er að með stækkun kjördæma eru vegalengdir innan sumra þeirra orðnar það miklar að flutningur atkvæða á talningarstað gæti tafið talsvert fyrir talningu, sérstaklega ef kosið er að vetrarlagi. Heimildin til að kjósa umdæmiskjörstjórn er þó einkum ætluð fyrir þrjú stærstu kjördæmin, þ.e. norðvesturkjördæmi, norðausturkjördæmi og suðurkjördæmi. Gera má ráð fyrir að skipuð verði ein umdæmiskjörstjórn í hvert þessara kjördæma og að kosnir verði þrír aðalmenn og þrír til vara í hverja þeirra. Kostnaður við starf umdæmiskjörstjórna mundi aðallega felast í þóknunum til kjörstjórnarmanna, aðstöðu og flutningi kjörgagna til yfirkjörstjórnar að talningu lokinni. Reiknað er með að hann geti numið í u.þ.b. 1,5 m.kr. Miðað við síðustu alþingiskosningar er þó ekki um viðbótarkostnað að ræða þar sem fjöldi talningarstaða og kjörstjórnarmanna var svipaður þá og heimill væri samkvæmt þessu frumvarpi.